Back to All Events

GDRN & Magnús Jóhann í Ísafjarðarkirkju

  • Skíðavikan Sólgata Ísafjörður, Ísafjarðarbær, 400 Iceland (map)

Söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann hafa komið mikið fram sem tvíeyki frá því að þau gáfu út hljómplötuna Tíu íslensk sönglög, árið 2022. Hún hefur að geyma tíu lög sungin af GDRN við meðleik Magnúsar í útsetningum tvíeykisins og hefur notið mikilla vinsælda. Á efnisskrá plötunnar er fjöldi íslenskra gersema á borð við Rósin, Hvert örstutt spor, Vikivaki og eitt frumsamið lag, Morgunsól. Um páskana liggur leið þeirra vestur og á Skírdag munu þau flytja íslenskar tónlistarperlur í bland við lög GDRN í Ísafjarðarkirkju. Gestir tónleikanna geta átt von á ljúfu kvöldi og þeirri hugljúfu stemningu sem er að finna á plötunni.

Húsið opnar 19:30 en tónleikarnir hefjast kl 20 og vara í rúma klukkustund. Miðaverð er 4500 kr. Miðasala á tix.is og í hurð.

Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, hefur látið mikið á sér kræla í íslensku tónlistarlífi frá því að hún gaf út sína fyrstu breiðskífu, Hvað ef, árið 2018. Sú hljómplata hlaut fjölda tónlistarverðlauna, tilnefningu til tónlistarverðlauna norðurlanda og mikla athygli. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjölda laga í samstarfi við aðra listamenn sem og aðra breiðskífu, GDRN, árið 2020. Seinni breiðskífu sína vann hún m.a í samstarfi við Magnús Jóhann en leiðir þeirra lágu saman í tónlistarskóla FÍH nokkrum árum áður. Þann 22. mars 2024 gefur hún út nýja sólóplötu, Frá mér til þín.

Magnús Jóhann Ragnarsson hefur verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem píanóleikari, upptökustjóri, tónskáld og ýmislegt fleira fyrir fjölda listamanna. Hann hefur gefið út fjórar sólóplötur, eina stuttskífu og dúóplötu ásamt Skúla Sverrissyni, bassaleikara. Hann var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023 og hefur undanfarið annast tónlistarstjórn í sjónvarpsþáttunum Idol. Bubbi Morthens, Friðrik Dór, Bríet, Ingibjörg Turchi, Stuðmenn og Rythmatik eru á meðal þess þverfaglega fjölda listafólks sem hann hefur starfað með.

Previous
Previous
March 28

80's veisla

Next
Next
March 28

Tónlistar- og helgistund í Flateyrarkirkju